Ef þú hefur pantað Galaxy Note í forsölu hérlendis, vertu þá viðbúin/n því að þurfa að bíða aðeins lengur. Í fjölmiðlum víða um heim hefur verið greint frá því að einhverjir eigendur tækisins hafi lent í því að rafhlaðan hafi hreinlega sprungið á meðan síminn þeirra var í hleðslu (sjá forsíðumynd með greininni).
Í tilkynningu frá suður-kóreska raftækjarisanum kemur fram að um 35 tilvik sé að ræða. Fyrirtækið vill hafa varann á, og hefur því stöðvað sölu á símanum. Þeir sem eru þegar komnir með Note 7 í hendurnar munu fá nýtt eintak frá Samsung þegar fram líða stundir.
Tímasetningin á þessu er ekki beinlínis heppileg, því næsta miðvikudag mun Apple, helsti keppinautur Samsung á snjallsímamarkaði, kynna iPhone 7. Samsung hefur þegar selt yfir milljón eintök af Galaxy Note 7.