fbpx

HomePod snjallhátalarinn frá Apple kemur í sölu þann 9. febrúar 2018, og forpantanir hefjast næstkomandi föstudag. Þetta kemur í fréttatilkynningu sem fyrirtækið birti fyrr í dag.

Fyrst um sinn verður sala á hátalaranum takmörkuð við stærstu enskumælandi markaði Apple, þ.e. Bandaríkin, Bretland og Ástralíu. HomePod kemur svo í sölu í Frakklandi og Þýskalandi síðar í vor.

https://youtu.be/1hw9skL-IXc

HomePod átti upphaflega að koma í sölu á síðasta ári, en fyrirtækið seinkaði útgáfu þess og það endaði því ekki í neinum jólapökkum eins og við greindum frá á sínum tíma.

Forsvarsmenn Apple segja að hljóðgæðin í HomePod færi hann í annan flokk en vinsælustu snjallhátalarana á markaði í dag, þ.e. Amazon Echo og Google Home. Google hefur þó svarað kallinu um snjallhátalara með betri hljómi og selur nú Google Home Max, sem kostar $399 (og er því dýrari en Apple HomePod).

Meiri upplýsingar um Apple HomePod

  • Apple HomePod er 17,2 cm á hæð og 14,2 cm á breidd, vegur 2,5 kg og kemur í tveimur litum, geimgráum (e. space grey) og hvítum.
  • Uppsetning HomePod er svipuð og á Apple AirPods og öðrum heyrnartólum frá Apple/Beats sem eru með svokallaðan W1 kubb, sem gerir pörun einfaldari en á hefðbundnum Bluetooth hátölurum. Þú heldur bara iPhone síma nálægt HomePod hátalaranum, og getur spilað tónlist á hátalaranum nokkrum sekúndum síðar.
  • HomePod styður bara Apple Music með raddstýringu (og til þess að vera með Apple Music þarftu að vera með Apple reikning í öðru landi en Íslandi). Þú getur spilað hljóð/tónlist frá öðrum streymiveitum og forritum frá öllum iOS tækjum því HomePod er með AirPlay 2. Apple hefur ekki sagt hvort stuðningur við t.d. Spotify sé væntanlegur.
  • Nokkrir aðrir eiginleikar (eins og multi-room audio, og víðóma hljómur þegar tveir HomePod hátaralar eru í sama herbergi) koma síðar með hugbúnaðaruppfærslu.
  • Þú getur svarað skilaboðum og símtölum með HomePod, og einnig beðið Siri um að lesa skilaboðin þín fyrir þig í hátalaranum (ágætis heimilisleikur að gera þetta fyrir skilaboð á íslensku og reyna að túlka hvað Siri er að segja).

HomePod mun kosta 349 dali (35.790 kr. miðað við núverandi gengi) þegar hann kemur á markað í Bandaríkjunum. Miðað við hvað aðrar Apple vörur kosta hérlendis sem eru á þessu verðbili þá má áætla að Apple HomePod muni kosta í kringum 55-65 þúsund krónur í Epli/Macland/iStore/Elko o.s.frv.