Bandaríska vefstofan UENO hefur keypt 33% hlut í íslenska vefhönnunarfyrirtækinu Kosmos & Kaos, en fyrrnefnda fyrirtækið hefur getið sér gott orð vestanhafs og komið að hönnun vefsíðna fyrir netrisa á borð við Google, Pinterest, Youtube og Dropbox, og er með höfuðstöðvar í San Francisco.
Kosmos og Kaos er vefhönnunarfyrirtæki, sem var stofnað árið 2010 af þeim Kristjáni Gunnarssyni og Guðmundi Bjarna Sigurðssyni. Hjá fyrirtækinu starfa 12 manns, sem er með skrifstofur í Reykjavík og Reykjanesbæ. Meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru Vodafone, Bláa lónið, Wow Air, Orkuveitan og Íslandspóstur.
Forvarsmaður UENO LLC er Íslendingurinn Gunnar Leó Gunnarsson, en hann verður stjórnarformaður Kosmos & Kaos eftir fjárfestinguna. Gunnar segir að UENO hafi skoðað nokkur íslensk fyrirtæki áður en ákveðið var að kaupa hlut í Kosmos & Kaos.
Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri Kosmos & Kaos, er hæstánægður með fjárfestingu UENO.
Það er einfaldlega glæsileg viðurkenning að UENO hafi séð tækifæri í okkar unga fyrirtæki. UENO er ein eftirsóttasta vefstofa í heimi og það er mjög jákvætt að þeir vilji nýta afrakstur mikillar velgengni sinnar erlendis í að fjárfesta í íslenskum vefiðnaði. Við viljum stöðugt bæta okkur, þroskast og vinna glæsilegar vefsíður fyrir viðskiptavini okkar. Fjárfestingin mun gera okkur kleift að stækka Kosmos & Kaos og fjölga bæði starfsfólki og viðskiptavinum. Reynsla UENO af stórum vefhönnunarverkefnum, sem og umtalsverð rekstrarþekking sem þeir koma með, mun styrkja okkur mikið. Þetta opnar fyrir okkur möguleika á að sækja fram bæði innan landsteinanna og utan.