Fyrir rúmum sólarhring þá bárust fregnir af uppfærðum skilmálum frá Instagram, þar sem fyrirtækið áskildi sér eignarrétt yfir myndum notenda, auk réttar til að selja myndir og upplýsingar í auglýsingar.
Stærsta sprengjan í nýju skilmálunum er eftirfarandi málsgrein (sem við setjum hér inn á ensku):
„You agree that a business or other entity may pay us to display your username, likeness, photos (along with any associated metadata), and/or actions you take, in connection with paid or sponsored content or promotions, without any compensation to you.“
Þarna segir einfaldlega að fyrirtæki megi borga Instagram fyrir að birta myndir og upplýsingar um myndir (eins og hverjum líkar við hana) án þess að þú fáir sneið af kökunni.
Notendur þjónustunnar hafa brugðist ókvæða við þessum tíðindum, og margir hafa hótað því að yfirgefa Instagram og nota í staðinn þjónustur samkeppnisaðila (t.d. Twitter og Flickr). Forsvarsmenn Instagram/Facebook tóku eftir þessu, og Kevin Systrom, einn af stofnendum Instagram, brást við með eftirfarandi færslu sem í nokkuð einföldu máli hljóðar svo:
- Auglýsingar á Instagram – Instagram er ætlað að vera fyrirtæki, sem þarf tekjur til að ganga. Auglýsingar eru hluti af tekjuáætlun fyrirtækisins.
Við ætlum að gera tilraunir með nýjar auglýsingaleiðir sem passa við þann einstaka miðil sem Instagram er. Ætlun okkar er að bæði notendur og fyrirtæki geti auglýst stakar myndir og/eða Instagram síðurnar sínar. Í þeim tilvikum þá getur verið að upplýsingar um þig birtist í slíku kynningarefni (ekki ósvipað og þegar maður sér „Jon Jonsson likes this Page“ í Sponsored posts á Facebook).
Myndirnar þínar munu aldrei vera seldar til notkunar í auglýsingu, og sá hluti skilmálanna verður fjarlægður.
- Eignarréttur mynda – Notendur Instagram eiga myndirnar sínar, og Instagram áskilur sér ekki eignarrétt yfir myndunum þínum.
- Friðhelgisstillingar – Engar breytingar hér. Þú stjórnar því hverjir sjá myndirnar þínar.
Eftirfarandi ályktanir má draga frá orðum Systrom:
- Auglýsingar – Nú vitum við ekki hvort þeim gangi gott eitt til, en eitt er víst: Auglýsingar eru væntanlegar í Instagram, en fyrirtækið veit bara ekki hvernig það ætlar að bæta auglýsingum við þjónustuna.
Myndirnar þínar verða ekki seldar, en forsíðumyndin þín og notandanafn gæti birst ef fyrirtæki auglýsir á Instagram.
Einungis þeir sem fylgja þér á Instagram munu þá sjá nafn þitt og mynd, ekki almenningur.
- Eignarréttur – Þú átt myndirnar, en þú leyfir Instagram að nota myndirnar í vissu samhengi með því að búa til reikning og nota Instagram.
- Friðhelgi – Ef þú velur að hafa lokaða (e. Private) Instagram síðu, þá breytist það ekkert. Einungis þeir sem fylgja þér á Instagram geta séð myndirnar þínar, en myndir gætu verið notaðar í kynningarskyni í fréttaveitu þeirra sem fylgja þér.