Þegar umfjöllunarefni kvikmyndar er Steve Jobs þá virðast margir vera um hituna. Kvikmyndin Jobs með Ashton Kutcher í aðalhlutverki er væntanleg í bíó á næstu mánuðum, auk þess sem Aaron Sorkin hefur verið ráðinn til að skrifa handrit eftir ævisögu Walter Isaacson um frumkvöðulinn sérvitra.
Grínveitan Funny or Die ákvað að leggja sitt af mörkum, og leggur nú lokahönd á kvikmyndina iSteve, sem kemur út 15. apríl næstkomandi.
Ryan Perez, handritshöfundur myndarinnar hefur grínast með að iSteve sé ekki byggð á mikilli heimildarvinnu, heldur frekar á stuttu innliti á Wikipedia síðu Steve Jobs.
Bandaríski leikarinn Justin Long fer með hlutverk Steve Jobs í myndinni. Einhverjir kynnu að kannast við hann úr „Mac vs PC“ auglýsingum Apple, auk þess sem hann lék stórt hlutverk í kvikmyndinni Live Free or Die Hard (2007).
Hér fyrir neðan má sjá Justin Long í Mac vs PC auglýsingum Apple.
http://www.youtube.com/watch?v=DZSBWbnmGrE