fbpx

 Android notendur, til hamingju með daginn. Spurningaleikurinn QuizUp, sem þið hafið eflaust heyrt iOS vini ykkar tala um undanfarna mánuði, er kominn út á Android.

Leikurinn hefur farið sigurför um heiminn frá því hann kom út í nóvember á síðasta ári, sem leiddi m.a. til þess að fyrirtækið var tilnefnt sem bjartasta vonin á Crunchies verðlaunahátíðinni nýverið og lenti þar í öðru sæti.

Notendur leiksins hafa spilað yfir einn milljarð leikja frá því hann kom fyrst út, og búist er við því að notendum muni fjölga umtalsvert í ljósi þess Android notendur geta nú spilað leikinn.

QuizUp - Android leikur

Spurningarnar og flokkarnir í QuizUp eru uppfærðir reglulega svo keppendur geti spreytt sig á málefnum sem eru efst á baugi hverju sinni. Meðal vinsælla flokka um þessar mundir eru vetrarólympíuleikarnir og sjónvarpsþátturinn House of Cards. Notendurnir sjálfir eiga miklar þakkir skildar fyrir framtak sitt við samningu spurninga, en þeir hafa sent inn yfir 20 þúsund spurningar sem bætt hefur verið við leikinn.

Eftir því sem keppendur þræða sig áfram í hverjum efnisþætti og spurningaflokkum í Quiz Up vinna þeir sér inn titla og heiðursmerki eins og: Best(ur) í borginni eða landinu. Komist keppendur upp í borð 10 í flokki geta þeir bætt titlum við prófílinn sinn (t.d. „Dough Boy“ í flokknum lógó og „Car Zar“ í flokknum bílar). Í prófíl hvers keppanda má m.a. sjá uppáhaldsflokka og þá titla og heiðursmerki sem viðkomandi hefur unnið sér inn.

QuizUp er fáanlegur í Google Play forritabúðinni og er vitanlega ókeypis.

Write A Comment