Þessa vikuna er friðhelgi á samfélagsmiðlun okkur ofarlega í huga og af því tilefni er WeKnowWhatYoureDoing vefsíða vikunnar að þessu sinni.
Callum Haywood, breskur 18 ára vefhönnuður, er maðurinn á bak við síðuna, en þar er hægt að sjá stöðuuppfærslur Facebook notenda sem hafa ekki hugað að friðhelgisstillingum sínum. Tilgangurinn vefjarins er að vekja fólk til vitundar um það hversu mikilvægt það er að kíkja á friðhelgisstillingar áður en það setur inn stöðuuppfærslur sem gætu komið þeim í bobba.
Á forsíðunni má sjá stöðuuppfærslur frá notendum sem greina m.a. frá nýlegri eiturlyfjanotkun sinni, auk þess sem sumir úthúða yfirmönnum sínum. Einnig er hægt að slá inn eigin leitarskilyrði með því að smella á Status Search.
Hægt er að skoða og breyta friðhelgisstillingum á Facebook með því að smella hér (að því gefnu að notendur séu innskráðir).