fbpx

AirPlay

AirPlay tæknin frá Apple er nokkuð mögnuð. Hún gerir eigendum iOS tækja, þ.e. iPhone, iPad og iPod Touch (auk nýlegra Mac tölva) kleift að senda myndir, tónlist eða myndbönd þráðlaust yfir á Apple TV sem er tengdur sama neti.

Með ýmsum forritum er svo hægt að nýta AirPlay tæknina á ýmsa vegu, t.d. spegla skjáinn úr Windows og Mac tölvum með AirParrotspila myndbandsskrár af Mac tölvu á Apple TV auk þess sem hægt er að breyta Windows tölvum í AirPlay móttakara.

Í þessu myndbandi má sjá hvernig AirPlay virkar

Á hvaða tækjum virkar AirPlay?

Ef þú átt iPhone, iPad eða iPod touch sem keyrir iOS 6 þá þarftu ekki að hafa neinar áhyggjur, tækið þitt styður AirPlay.

Það er til tvenns konar AirPlay spilun, annars vegar hefðbundin AirPlay spilun annars vegar og AirPlay Mirroring hins vegar. Hefðbundin AirPlay spilun var kynnt til sögunnar með iOS 4.3 sem kom út í mars 2011, og með slíkri spilun er hægt að birta ljósmyndir og spila tónlist eða myndbönd þráðlaust á Apple TV.

Elstu tækin sem styðja AirPlay spilun eru iPhone 3GS, iPhone 4 og fyrsta kynslóð af iPad, en þessi tæki ekki AirPlay Mirroring (sjá næsta lið).

AirPlay Mirroring

AirPlay speglun

Með iPad 2 var nýr AirPlay möguleiki kynntur til sögunnar, þ.e. AirPlay Mirroring sem hægt væri að kalla algjöra speglun ef maður ætti að lýsa fyrirbærinu, en þannig er hægt að spegla hvaðeina sem er að gerast á iOS tækinu yfir á Apple TV eða annan AirPlay móttakara. Ef þú átt tæki sem styður AirPlay Mirroring þá geturðu deilt nethringnum þínum, og jafnvel spilað myndbönd (eða mynbönd í beinni) á Apple TV sem styðja ekki alltaf hefðbundna AirPlay spilun.

Elstu iOS tækin sem styðja AirPlay Mirroring eru iPad 2, iPhone 4S og fimmta kynslóð af iPod touch.

Margir einstaklingar sem eiga bæði iOS tæki og Apple TV vita ekki af þessum möguleika, en þú virkjar hann með eftirfarandi hætti:

Skref 1: Passaðu að iOS tækið þitt (iPhone, iPad, iPod touch) og Apple TV spilarinn séu tengd við sama Wi-Fi.

Skref 2: Tvísmelltu á Home takka iOS tækisins sem sýnir þér lista yfir nýlega notuð forrit (e. multitasking bar).

Skref 3: Nú skaltu færa forritin tvisvar til hægri þangað til þú sérð AirPlay táknið (sjá mynd): AirPlay tákn

Skref 4: Smelltu á AirPlay táknið og þá ætti að koma listi yfir AirPlay móttakara sem eru tengdir við sama Wi-Fi.

AirPlay speglun

Skref 5: Þegar þú smellir á Apple TV eins og á myndinni að ofan þá ætti „Mirroring“ línan að birtast, en sjálfgefin stilling þar er OFF. Með því að smella á hakið þannig að það sé stillt á ON þá ætti skjárinn á iOS tækinu að birtast í sjónvarpinu þínu.

AirPlay Mirroring virkar líka Mac tölvum sem voru framleiddar um mitt árið 2011 og eru með Mountain Lion stýrikerfið uppsett á tölvunni. Hægt er að lesa meira um þetta á upplýsingasíðu Apple.

Til þess að nýta AirPlay Mirroring á Mac tölvunni þinni þá þarftu að fara í System Preferences og opna þar Displays. Þar ætti eftirfarandi valmöguleiki að vera til staðar:

 mac-airplay-mirroring

Ef AirPlay Mirroring möguleikinn birtist ekki í System Prefereces > Display þá styður tölvan þín ekki þennan möguleika.

Til þess að slökkva á AirPlay Mirroring þá tekurðu bara hakið af Apple TV og setur það á Off. Einnig er hægt að smella bara á Menu takkann á Apple TV fjarstýringunni.

Kíktu á myndbandið fyrir neðan ef þú ert ekki alveg viss um hvernig AirPlay Mirroring virkar.

 

AirPlay virkar ekki. Hvað geri ég?

Athugið Vert er að benda á að þótt þú notir Netflix eða Hulu skv. leiðarvísum okkar þá hefur það engin áhrif á AirPlay.

Þú sest í sófann, ert að hlusta á A-Team með Ed Sheeran og vilt leyfa laginu að óma í sjónvarpinu til að njóta þess almennilega, en sérð þá ekki AirPlay takkann! Hvað er þá til ráða?

Sumir kannast því miður við þetta hvimleiða vandamál, sem lýsir sér einmitt þannig að AirPlay táknið birtist ekki, hvorki á iOS tækjum né Mac tölvum sem styðja AirPlay spilun. Helstu úrræðin við þessu vandamáli hljóða svo:

  1. Kannaðu hvort Apple TV taki á móti AirPlay spilun (á að vera sjálfgefin stilling en maður veit aldrei). Þú kannar það með því að fara í Apple TV spilarann þinn, fara þar Settings > AirPlay. Einnig skaltu prófa að opna YouTube eða eitthvað annað til að vera viss um að netið virki á tækinu.
  2. Kanna hvort tækin séu tengd við sama Wi-Fi. Nú koma þráðlausir beinar stundum með möguleika á gestaneti (e. guest network), þannig að það varpar tveimur þráðlausum netum frá sér. Besta fólk hefur lent í því að tengja tækin við sitthvort netið, sem veldur því að ekki er hægt að spila efni með AirPlay.
  3. Endurræsa beininn (e. router) þinn. Best er að slökkva á honum, taka hann úr sambandi og bíða í 15-20 sekúndur áður en honum er stungið aftur í samband. Það sakar ekki að gera slíkt hið sama við Apple TV spilarann. Þetta er lang algengasta lausnin. Hjá sumum hefur þetta hrokkið í gang eftir að beinirinn hefur verið endurræstur í annað eða þriðja sinn. [pl_label type=“warning“]Algengasta lausnin[/pl_label]
  4. Slökkva á Bluetooth í iOS tækjum. Ef það er iPhone eða iPad á heimilinu þá getur það truflað Airplay ef það er kveikt á Bluetooth. Prófaðu að slökkva á Bluetooth með því að fara í Settings > General > Bluetooth á iPhone/iPad/iPod touch.
  5. Slökkva á eldvegg (e. firewall). Málum getur verið þannig háttað að eldveggur í tölvunni eða á beininum lokar fyrir AirPlay spilun. Ef innbyggður eldveggur í routernum er að loka á þetta þá gæti þurft að opna fyrir eftirfarandi port á routernum (þeir sem hafa ekki aðgang að beininum sínum þurfa að tala við þjónustuaðilann sinn biðja þá um að opna portin):
  • 80 TCP
  • 443 TCP
  • 554 UDP / TCP
  • 3689 TCP
  • 5297 TCP
  • 5289 TCP / UDP
  • 5353 UDP
  • 57385 UDP
  • 6002 UDP
  • 49159 UDP
  • 49163 UDP
  1. Það getur hjálpað að skipta um rás á beininum, þ.e. wireless channel. Örbylgjuofnar, þráðlausir símar og þráðlaust net nágrannans getur verið á sömu rás og netið þitt. Það er samt mjög ólíklegt að þetta sé orsökin.
  2. Einnig skaltu prófa að tengja Apple TV við beininn með netsnúru (Ethernet-snúru) ef tök eru á.

Þá hefur verið farið yfir öll helstu atriðin sem tengjast AirPlay. Ef einhverjar fleiri spurningar vakna þá er hægt að skrifa ummæli hér fyrir neðan eða hafa samband í gegnum fyrirspurnakerfið.

Avatar photo
Author

1 Comment

Write A Comment