Spurningaleikurinn QuizUp, sem flestir tækniþenkjandi Íslendingar þekkja til, lenti í öðru sæti í flokknum „hástökkvari sprotafyrirtækja“ (e. Fastest rising startup), á Crunchies verðlaunahátíðinni sem fram fór í San Francisco fyrr í vikunni.

Árangur QuizUp er magnaður, sérstaklega í ljósi þess að leikurinn kom í App Store fyrir þremur mánuðum, en leikurinn hefur setið ofarlega á topplistum í App Store allt frá því leikurinn kom út. Þegar tilnefningarnar voru kynntar á hátíðinni þá var þess sérstaklega getið að QuizUp hafi náð milljón notendum á einni viku, eins og við greindum frá á sínum tíma.

Vefsíðan Upworthy bar sigur úr býtum í flokknum en Lulu, Tinder og Whisper lutu í lægra haldi fyrir QuizUp og Upworthy. Upworthy er vefur sem miðar að því að koma „mikilvægum“ boðskap á framfæri og fá fólk til að dreifa honum á netinu og samfélagsmiðlum.

Sigurvegarar í öðrum flokkum voru Snapchat (besta farsímaforritið), Tinder (nýliði ársins) og Kickstarter (besta sprotafyrirtækið), Waze (besta alþjóðlega sprotafyrirtækið) auk þess sem Dick Costolo hjá Twitter, var valinn forstjóri ársins.

Það er tæknimiðillinn TechCrunch sem stendur að Crunchies verðlaunahátíðinni, í samstarfi við VentureBeat og GigaOM.

Write A Comment