fbpx

Næstkomandi mánudag mun Google kynna nýja streymiþjónustu, YouTube Music Key, sem kemur til með að kosta 10 dollara á mánuði (og þá væntanlega 10 evrur/mán hérlendis miðað við verðlag á Spotify).

Áskrifendur þjónustunnar munu geta horft á tónlistarmyndbönd og hlustað á lög af YouTube án auglýsinga, og einnig haldið spilun áfram þótt símanum sé læst, ef notendur skipta yfir í annað forrit eða internettengingin rofnar.

Einhverjir kynnu að segja að Google væri að fara inn á heldur mettaðan markað, þar sem fyrir eru lausnir á borð við Spotify, Rdio og m.a.s. Google Play Music All Access. Staðreyndin er samt sú að í hverjum mánuði heimsækir yfir milljarður manns YouTube, sem er vinsælasti tónlistarmiðillinn á netinu í dag. Margir YouTube notendur hafa aldrei líklega heyrt um þessar streymiþjónustur og taka þessum möguleika fagnandi. Hérlendis er Spotify t.d. eina streymiþjónustan sem hefur náð að ryðja sér til rúms, á meðan sárafáir nota aðrar streymiþjónustur.

YouTube Music Key

Þeir sem eru þegar með Google Play Music All Access (nafnið er svona langt í alvörunni) munu strax fá aðgang að þjónustunni (og öfugt), en annars er notendafjöldi takmarkaður við þá sem fá boð í þjónustuna (þ.e. hún er invite-only).

YouTube Music Key verður ýtt úr vör í sjö löndum til að byrja með, þ.e. Bandaríkjunum, Bretlandi, Finnlandi, Írlandi, Ítalíu, Spáni og Portúgal. Það er því ljóst að Ísland er ekki fremst á listanum frekar en venjulega. Það verður því athugavert að sjá hvort það verði lokað á íslenska GPMA notendur eður ei þegar þjónustan fer í loftið.

Write A Comment