fbpx

Ef þú fékkst Apple TV að gjöf nýlega, þá getur verið að þú spyrjir þig hvernig hægt sé að spila efni á tækinu. Í þessum leiðarvísi reynum við að koma þér vel af stað, svo þú getir farið að njóta efnis á Apple TV eftir minna en klukkutíma ef allt gengur vel.

Kveikt á tæki. Æskilegar stillingar

Þegar þú tengir tækið og kveikir á því í fyrsta sinn, þá biður tækið þig um að tengjast heimilisnetinu. Ef það gerist ekki af einhverjum ástæðum þá skaltu fara í Settings > General > Network til að tengjast netinu. Ef Apple TV er nálægt netbeininum (e. router) þínum þá mælum við með því að þú tengir tækið með netsnúru, en annars skaltu tengjast Wi-Fi neti heimilisins.

Þá mælum við eindregið með því að þú farir í Settings > iTunes Store, skrunir vel niður og veljir United States.

Apple TV - iTunes Store

Apple TV - iTunes United States

Með því að gera það verður heimaskjárinn mikið flottari, og þá sérðu fjölmargar þjónustur sem þú getur nýtt þér með hjálp DNS þjónustu á borð við Playmo.tv.

playmoTV (Fyrir aðgang að Netflix / Hulu Plus / PBS / Crackle / A&E / Lifetime)

Apple TV - Heimaskjár

Með Apple TV geturðu fengið aðgang að fjölmörgum þjónustum, með hjálp Playmo.tv. Þú þarft að greiða aukalega fyrir Netflix og Hulu Plus (þ.e. auk aðgangsgjalds að playmo.tv), en hinar þjónusturnar eru ókeypis. Fjölmargar þjónustanna sem þú sérð á skjánum eru þó einungis í boði fyrir aðila sem eru með ameríska sjónvarpsáskrift, eins og t.d. HBO GO, ESPN og ABC.

 • Netflix: Stærsta og vinsælasta myndveita í heimi. Efnisúrvalið gífurlegt, u.þ.b. 9000 titlar, og nýtt efni kemur reglulega inn. Verð: Kostar frá $7.99/mán, en vinsælasta áskriftarleiðin kostar $8.99/mán.
 • Hulu Plus: Hulu Plus beinir sjónum að nýju sjónvarpsefni, og hentar því þeim sem vilja fylgjast með nýjum bandarískum þáttum eins og Grey’s Anatomy, Modern Family og The Mindy Project. Flestar bandarísku sjónvarpsstöðvarnar eru með þættina sína í Hulu Plus (fyrir utan CBS, sem stofnaði nýverið sína eigin streymiþjónustu). Verð: Hulu Plus kostar $7.99/mán.
 • Crackle: Myndveita í eigu Sony. Efnisúrvalið ekki frábært, en það er erfitt að kvarta þegar þjónustan er ókeypis. Crackle er eflaust þekktust fyrir einkarétt sinn á seríunni Comedians in Cars Getting Coffee, en þar ræðir hinn heimsfrægi Jerry Seinfeld við aðra þekkta grínista. Verð: Ókeypis
 • PBS: Bandaríska RÚV. Þar má sjá vandað efni eins og fréttaskýringaþáttinn Frontline, sígildar teiknimyndir eins og Sesame Street og Tommi togvagn, ásamt fleira efni. Verð: Ókeypis
 • A&E: Á A&E má einkum finna raunveruleikaþætti. Þjónustan getur verið ruglandi við fyrstu notkun, því hún er bæði með efni sem er frjálst öllum sem hafa aðgang að rásinni á Apple TV, en eru svo einnig með efni sem einungis er hægt að horfa á ef notandinn er með bandaríska sjónvarpsáskrift. Slíkt efni er auðkennt með lás á forsíðu. Vinsælt efni sem má finna þar eru Storage Wars og Duck Dynasty. Verð: Ókeypis.
 • Lifetime: Lifetime er bæði með eitthvað af efni sem er sérstaklega framleitt fyrir veituna, auk eldra efnis sem er endursýnt (t.d. Frasier, How I Met Your Mother og Grey’s Anatomy). Verð: Ókeypis.

Ef þú vilt fá aðgang að þessum þjónustum, þá þarftu að vera með virka áskrift hjá playmoTV, sem sér um að gabba þessar þjónustur, svo þær haldi að Apple TV tækið sé staðsett í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Notaðu Netflix á Íslandi

Við vísum í Netflix leiðarvísinn varðandi tengingu við playmoTV og það allt, en þar má finna ítarlegar leiðbeiningar um hvernig maður býr til reikning hjá playmoTV, stofnar Netflix reikning og loks hvernig einkatölvur, iOS tæki og Apple TV (auk fleiri tækja) eru tengd við við DNS þjóna playmoTV, svo hægt sé að nota þessar þjónustur.

Bandarískur iTunes reikningur

iTunes

Ef þú ert með íslenskan iTunes reikning, þá gagnast hann lítið á Apple TV tækinu, því íslenskir reikningar veita bara aðgang að App Store. Með því að stofna bandarískan iTunes reikning þá færðu einnig aðgang að iTunes myndveitunni, sem er með gífurlegt efnisúrval mynda og sjónvarpsþátta. Með því að fylgja þessum leiðarvísi verðuru komin/n með amerískan iTunes reikning á innan við 10 mínútum.

Amerískur iTunes reikningur gerir þér einnig kleift að greiða fyrir Hulu Plus áskrift í gegnum iTunes ef þú hefur áhuga á því.

Aftur á móti er einn hængur á þessu, en hann er sá að þú getur ekki tengt íslenskt kreditkort við reikninginn til að greiða fyrir kvikmyndir, þætti, Hulu Plus eða forrit í App Store, heldur þarft að gera það með iTunes inneignarkortum. Hægt er að kaupa þau víða á netinu. Eplakort er söluaðili sem býður upp á hraða og góða þjónustu.

AirPlay

AirPlay

Ef þú átt iPhone eða iPad, þá er AirPlay tæknin alveg magnað fyrirbæri, nokkuð sem getur verið virkilega þægilegt ef þú vilt streyma myndefni eða tónlist úr iOS tæki yfir í Apple TV. Í þessari grein okkar er farið betur yfir AirPlay tæknina, hvernig hún virkar o.s.frv.

Ath! Ef þú ert með heimabíómagnara í sjónvarpsstofunni, þá geturðu tengt hljóðið úr Apple TV beint í magnarann með Optical snúru (einnig kölluð Toslink eða S/PDIF). Með því að gera það, þá geturðu streymt hljóði úr tölvum eða iOS tækjum yfir í hljóðkerfið sem tengist magnaranum án þess að kveikt sé á sjónvarpinu. Hentugt ef þú vilt hafa tónlist í matarboði eða nýárspartýinu án þess að það sé kveikt á sjónvarpinu.

Önnur sniðug forrit og ráð

Auka fjarstýringar

Apple TV fjarstýringin er lítil og nett. Svo nett að hún á það til að finna glufur í sófanum og „týnast“ þar. Það eru tvö ráð við þessu. Annars vegar að sækja Remote forritið í App Store, og stjórna Apple TV tækinu með forritinu. Helsti kostur forritsins er að það auðveldar innslátt texta.

Þú getur einnig tengt sjónvarpsfjarstýringuna við tækið og notað hana til að stjórna Apple TV-inu. Við mælum helst með því ef fjarstýringin getur skipt um ham, þannig að hægt sé að velja TV / VCR / DVD o.s.frv.

Spilun efnis af tölvu

Nýlegar Mac tölvur geta speglað efni beint af tölvunni yfir á Apple TV án þess að nokkur hugbúnaður sé settur upp á tölvunni. Eina sem þarf að gera til að virkja það er að fara í System Preferences > Displays og velja þar AirPlay Display. Einnig er hægt að haka við „Show mirroring options in the menu bar when available“ svo þú sért fljótari að spegla efni yfir á Apple TV tækið.

Mac forritið Beamer er einnig gríðarlega öflugt, en þú getur notað það til að spila myndbandsskrár af tölvunni þinni (AVI / MKV / MP44 o.fl.) með einföldum hætti. Hægt er að setja saman lista af efni til að spila, svo þú getur hæglega sett heila sjónvarpsseríu í forritið og síðan bara lagt tölvuna frá þér. Beamer kostar $15.

Á Windows er forritið AirParrot besta lausnin, en það gerir notendum kleift að streyma myndefni, spegla það sem er í gangi á tölvunni og margt fleira yfir á Apple TV. Forritið kostar $14.99.

4 Comments

 1. Sveina Björk Jóhannesdóttir Reply

  Hæ, hvernig gerist þið áskrifendur að CBS, þarf ekki kredidkort til þess?

 2. Gísli Gíslason Reply

  Var að fá mér Apple Tv en gengur illa að tengjast. Ég stofnaði aðgang í iTunes store í pc hemilistölvunni og ekkert vandamál þar en þegar ég reyni að logga mig inn á Apple Tv tækinu þá er ėg beðinn um að búa til iTune store aðgang þrátt fyrir að vera búinn að búa til aðgang? Hvað veldur þessu?

 3. Sigridur Bjornsdottir Reply

  Er nauðsynlegt að sjónvarpið sé með HDMI tengi eða er hægt að nota USB?

Write A Comment