Eitt algengasta vandamál Mac notenda, eða þeirra sem skipta úr Windows tölvu yfir í Apple hljóðar svo: Viðkomandi á utanáliggjandi harðan disk, sem var forsniðinn (e. formatted) fyrir Windows stýrikerfi, með svokölluðu NTFS-sniði, og fyrir vikið getur viðkomandi bara lesið, en ekki skrifað gögn á diskinn.
Ástæðan að baki þessu er einföld. Windows diskar eru í NTFS-sniði (New Technology File System) á meðan harðir diskar á Mac OS X notast við HFS+ snið (Hierarchical File System). Ef þú ert á Windows þá geturðu því ekki skrifað á HFS+ disk, né öfugt, nema þú hafir sérstakan hugbúnað uppsettan á tölvunni þinni.
Þetta eru helstu forritin sem fást við þetta á Mac:
NTFS-3G
Eina ókeypis forritið á listanum. Ætti að duga fyrir litlar skrár, en rannsóknir okkar gefa til kynna að skrifhraðinn með notkun þess sé ekki mikill (3-5MB/s) þannig að ef þú ert að færa allt Sopranos safnið yfir á flakkara, þá viltu kannski skoða aðra valkosti.
Tuxera
Vinsælasta forritið sem veitir manni skrifaðgang að NTFS drifum á Mac OS X heitir Tuxera (sem sér einnig um NTFS-3G). Með Tuxera er skrifhraði á NTFS diska mun meiri, og lausn sem við mælum með ef þú ert að vinna mikið með NTFS diska. Forritið kostar $31, eða rúmar 4.200 krónur miðað við núverandi gengi.
Aðrir valkostir
Þeim sem vilja ekki setja upp nein forrit standa tveir valmöguleikar til boða, þ.e. að forsníða flakkarann í exFAT eða FAT32 sniðinu, sem hvort um sig hefur sína kosti og galla.
FAT32 sniðið er vinsælt. því það er hægt að skrifa á þannig diska bæði úr Windows og Mac tölvum, og flestir (eða hér um bil allir) margmiðlunarflakkarar og snjallsjónvörp með USB inngangi styðja FAT32 sniðið. Gallinn við þetta kerfi er sá að takmörk eru sett við stærð stakra skráa, sem er 4 GB, þannig að þú munt ekki setja neinar kvikmyndir í háskerpu á disk sem er forsniðinn þannig. Sjálfur harði diskurinn má svo ekki vera stærri en 8 TB.
exFAT er stýrikerfið sem að vissu leyti tók við af FAT32, hefur ekki sömu takmarkanir á stærð skráa eða diska. Ef þú ert bara með minniskubb sem þú vilt nota til að færa gögn á milli Windows og Mac tölva, þá mælum við með því að þú forsníðir hann með exFAT. Margir margmiðlunarflakkarar styðja þó ekki exFAT, þannig að ef þú forsníður disk þannig, þá gætirðu lent í því að þú fáir upp villu þegar þú tengir diskinn við sjónvarp, þótt þú getur notað hann sem flakkara við tölvuna þína.
4 Comments
Það er einfalt að stilla OS X þannig að það geti líka skrifað á NTFS diska (Windows) bara smá tweek, en ég er ekki alveg klár á hinu öfuga að láta Windows skrifa á Mac formattaða diska. HInsvegar kann Linux á allt þetta klabb. Gallinn við flestar uppsetningar á Windows er að standard Windows upsetning er MBR partitionering en Mac er með Guid partitioneringu sem er betri, liklega er Mac formatið nokkru betra en Windows formatið. Leit á skjölum á Mac er eldsnögg miðað við Windows sem tekur eilífð.
Já, það er hægt að gera það með smá Terminal fiffi, sbr. þessi grein: http://osxdaily.com/2013/10/02/enable-ntfs-write-support-mac-os-x/
Við ætluðum að láta þær ítarlegu leiðbeiningar fylgja líka, en sáum svo í ummælum við þá grein (og fleiri svipaðar) að einhverjir hafa lent í vandræðum með að lesa gögn sem eru afrituð yfir á NTFS disk með þeim hætti á Windows tölvum.
Ég er ekki viss um að þetta sé hægt á Windows, nema með uppsetningu einhverra forrita eins og Macdrive.
Hvað með Paragon NTFS ?
Kostar ekki nema $20.
Það er vissulega ódýrara, en við samanburð á Tuxera og Paragon þá kom í ljós að Paragon gefur út nýja útgáfu fyrir hvert stýrikerfi, þannig að heildarkostnaðurinn er meiri á 2-3 árum.