Apple keypti nýlega ísraelska hugbúnaðarfyrirtækið RealFace. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun hugbúnaðar fyrir andlitsgreiningu (e. face recognition) sem valkost í stað hefðbundinna lykilorða eða fingrafars.
Kaupverð fyrirtækisins er nokkuð á reiki. Ísraelski miðillinn Times of Israel greindi frá því að Apple hefði keypt fyrirtækið á 2 milljónir dollara, eða u.þ.b. 225 milljónir króna miðað við núverandi gengi, en annar miðill, Calcalist, kvað kaupverðið nema nokkrum milljónum dollara.
Þessi kaup renna stoðum undir orðróm þess efnis að næsti iPhone sími Apple muni koma með andlitsgreiningu, sem hægt verður að nota til að opna símann í stað fingrafars eða lykilorðs.
iPhone fagnar 10 ára afmæli sínu í ár, og talið er að Apple muni nýta tækifærið og gefa út sérstaka viðhafnarútgáfu af símanum, sem mun þá bera heitið iPhone X. Verðið á iPhone X verður mögulega í hærri kantonum, en AppleInsider greindi frá því að grunnútgáfa símans komi til með að kosta yfir þúsund dali vestanhafs (til samanburðar þá kostar iPhone 7 32GB $649 án söluskatts).