fbpx

Á WWDC kynningunni fyrr í vikunni kynnti Apple nýjan hátalara, sem ber heitið Apple HomePod. Apple HomePod er þráðlaus hátalari sem leyfir þér að stjórna tónlistinni (og ýmsu öðru) með raddskipunum.

Undanfarna mánuði hefur verið þrálátur orðrómur um að Apple myndi kynna svona snjallhátalara, en bæði Amazon og Google eru með vörur sem eru að einhverju leyti sambærilegar Apple HomePod. Amazon með Amazon Echo og Echo Dot, og svo Google með Google Home.

https://www.youtube.com/watch?v=1hw9skL-IXc

HomePod mun einnig keppa við Sonos um dýrmætt pláss í stofum, eldhúsum og svefnherbergjum neytenda, því varan er í svipuðum verðflokki og Sonos Play 3, og býður upp á sambærilega möguleika, þ.e. hágæða hljóð og möguleikann á að spila efni úr mörgum hátölurum samtímis (e. multi-room audio).

Með HomePod munu notendur geta sent skilaboð, fengið nýjustu fréttir, úrslit úr íþróttaleikjum, stjórnað snjalltækjum á borð við Philips Hue og margt fleira. Þetta verður líklega hægt á þeim 20 tungumálum sem Siri skilur, en íslenska er vitaskuld ekki eitt þessara tuttugu tungumála.

Hátalarinn er með sex hljóðnemum sem á að gera Siri kleift að taka við beiðnum án þess að viðkomandi sé nálægt tækinu.

Hvað mun Apple HomePod kosta?

Hátalarinn mun kosta 349 dali vestanhafs, því er líklegt að hann muni kosta á bilinu 50 – 60 þúsund krónur hérlendis þegar hann kemur á markað. Apple HomePod kemur á markað í desember, þannig að hátalarinn verður að öllum líkindum vinsæl jólagjöf.