Ein helsta nýjungin á iPhone er stuðningur við 4G LTE gagnaflutningsnet, sem styður gagnaflutning allt að 72Mbit/s. 4G LTE net er ekki komið til Íslands, og því ekki hægt að segja til um hvenær þessi draumur verður að veruleika, en það er ekki hægt að segja annað en að maður fái vatn í munninn við að sjá þessar tölur.
Í skjáskotinu hér að neðan má fyrst sjá skjáskot af hraðaprófi á LTE gagnaflutningsneti hjá kanadíska símfyrirtækinu Rogers, og síðan skjáskot undirritaðs af hraðaprófi hjá 3G neti Nova. Stærðarmunurinn á skjáskotunum skýrist af því að iPhone 5 er eins og kunnugt er með 4″ skjá, en iPhone 4S með 3,5″ skjá.
Fyrir þá sem ekki vita þá er 1MB/s (þ.e. megabæt) = 8Mbit/s, þannig að 47.63 Mbps jafnast á við tæplega 6MB/s. Notendur eru því komnir með svipaðan hraða í símanum sínum og þjónustunotendur ljósleiðara eða ljósnets hérna á Íslandi.