Í gær fengu allir grunnskólanemar á landinu að gjöf átta rafbækur sem þeir geta sótt ótakmarkað. Það er rafbókaveitan emma.is og rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson sem standa að bókagjöfinni, en markmiðið með gjöfinni er að hvetja krakka og unglinga til aukins yndislesturs.
Helsti hvati verkefnisins eru nýlegar kannanir, sem hafa sýnt að ungt fólk í dag lesi minna en á árum áður.
Bókagjöfinni var hleypt af stokkunum í Vogaskóla í gær en þar hafa nemendur og kennarar verið að prófa sig áfram með notkun lestölva í samstarfi við Skólavefinn. Nemendur í 8.-10. bekk mættu þá í upplýsingaver/bókasafn skólans, þar sem nemendurnir fengu þeir aðstoð ef þeir óskuðu við að sækja bækurnar.
Óskar Þór Þráinsson, einn stofnenda emma.is sagði að krakkarnir væru mjög áhugasamir um verkefnið, og að þeir væru mjög fljótir að átta sig á því hvernig sækja ætti bækur á það tæki sem þau höfðu aðgang að, hvort sem það voru lestölvur í eigu skólans eða önnur tæki af heimilinu.
Bæði nemendur og foreldrar hafa tekið rafbókagjöfinni vel og þegar hafa yfir 350 rafbækur verið sóttar. Það gefur skýr skilaboð um að börn, unglingar og foreldrar vilja lesa, á hvaða formi sem það er. Bókagjöfin verður áfram kynnt fyrir grunnskólum og aðstandendum barna og unglinga meðal annars með aðstoð skólabókasafna sem gegna einmitt lykilhlutverki í upplýsingaleikni og lestraruppeldi grunnskólabarna.
Starfmenn Emmu hafa unnið að því í sumar að færa eldri bækur Þorgríms Þráinssonar á stafrænt form og gera úr þeim rafbækur sem hægt er að lesa á öllum lestækjum og tölvum svo sem iPad, iPhone, iPod touch, Kindle, snjallsímum með Android eða Windows, PC tölvum eða Mac.
Bækurnar sem Emma og Þorgrímur gefa eru:
– Með fiðring í tánum (frá 1998),
– Bak við bláu augun (1992),
– Lalli ljósastaur (1992),
– Spor í myrkri (1993),
– Sex augnablik (1995),
– Svalasta 7an (2003),
– Undir 4 augu (2004)
– Litla rauða músins (2008).
Það er von Þorgríms og aðstandenda Emmu að þessi veglega bókagjöf hvetji grunnskólanemendur til þess að lesa meira og nýta sér nýja tækni til lestursins. Bækurnar verður hægt að sækja á emma.is frítt skólaárið 2012-2013.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum í Vogaskóla
[imagebrowser id=16]