Vodafone kynnti í dag nýja þjónustuleið yfir ljósleiðara, þar sem neytendum gefst kostur á að fá 500 Mb/s tengingu með ótakmörkuðu niðurhali fyrir 13.490 kr./mán. Á Vodafone blogginu kemur fram að þetta sé hraðasta þjónustuleið sem hægt sé að fá hérlendis í dag.
Eins og fram kemur í verðsamanburði okkar á ljósleiðara- og ljósnetstengingum, þá hefur Hringiðan boðið upp á 200 Mb/s og 400 Mb/s þjónustuleiðir í nokkurn tíma, nema með takmörkuðu gagnamagni.
MB vs Mb. Hver er munurinn?
Internetþjónustur auglýsa ávallt hraðann í megabitum (Mb, með litlu b-i), á meðan niðurhalshraðinn sem þú sérð þegar þú sækir efni í, torrent forritinu þínu o.s.frv. í megabætum (MB).
Í einu megabæti eru 8 megabitar, þannig að ef þú vilt vita hversu hröð tengingin er sem þú færð þá geturðu einfaldlega deilt auglýstum hraða með 8, og þá sérðu hver hámarkshraðinn er á tenginunni. Það þýðir að með 500 Mb/s þjónustuleiðinni verður hægt að sækja efni á allt að 62,5 MB/s.
Þarf ég þennan ógnarhraða?
Þegar stórt er spurt. Ef þú deilir heimili með maka og kannski einu barni, þá ætti 100 Mb/s tenging nú að duga. Netflix þarf t.a.m. bara 5 Mb fyrir straum í háskerpu.
Það er helst að þetta breyti miklu á stórum vinnustöðum sem deila einni tengingu, þar sem 20-40 einstaklingar eru að sækja og senda frá sér efni.