fbpx

Apple heldur viðburð í dag kl. 17 að íslenskum tíma þar sem fyrirtækið mun kynna nýjusta snjallsíma fyrirtækisins, iPhone 12. Venjulega heldur Apple iPhone viðburðinn í september, en vegna seinkana í framleiðslu út af Covid-19 þá var útgáfu símans frestað um mánuð.

Allt bendir til þess að Apple muni kynna fjóra síma í dag, sem muni allir koma með 5G, sem er næsta kynslóð farneta. Það verða líklega eftirfarandi símar:

  • iPhone 12 Mini – frá $699
  • iPhone 12 – frá $799
  • iPhone 12 Pro – frá $999
  • iPhone 12 Pro Max – frá $1099

Af listanum má sjá að iPhone 12 Mini er nýjung í snjallsímavörulínu Apple, sem verður með sama vélbúnað og iPhone 12 nema í minni ramma, þ.e. 5,4 tommu skjá. Til samanburðar þá verður iPhone 12 með 6,1 tommu skjá, sem er sama stærð og iPhone 11 og iPhone XR.

Talið er að iPhone Pro 12 muni stækka, og verði nú með 6,1 tommu skjá (iPhone 11 Pro er með 5,8 tommu skjá) og að iPhone Pro Max fari úr 6,5 í 6,7 tommu skjá.

Hvað annað verður (hugsanlega) kynnt?

HomePod Mini

HomePod snjallhátalarinn frá Apple er talinn hljóma vel frá flestum sem hafa prófað hann, en hann selst ekki nógu vel þar sem að snjallhátalarar frá Google og Amazon eru í boði á lægri verðbilum. Apple hyggst svara því með HomePod Mini, sem verður líklega kynntur í dag og kemur í almenna sölu eftir mánuð.

HomePod kostar $299 vestanhafs, sem þykir einfaldlega of dýrt, en HomePod Mini kemur líklega til með að kosta $99, og kemur þá til með að keppa við Google Home og Amazon Echo.

AirPods Studio / AirTags / Nýtt Apple TV

Það er vitað að Apple vinnur að þróun heyrnartóla sem ná yfir eyrun, og munu líklega heita AirPods Studio. Apple mun líklega kynna tvær útgáfur af þessum heyrnartólum, Sport útgáfu á $349 og lúxus útgáfu með leðurpúðum á $599. Í síðasta mánuði hætti Apple að selja heyrnartól frá öðrum framleiðendum í verslunum sínum, sem rennir frekari stoðum undir þennan orðróm.

AirTags eru lítil staðsetningartæki sem Apple er að þróa sem hjálpar eigandanum að finna lykla, töskur og aðra hluti sem geta auðveldlega týnst í amstri dagsins. Vinsælasta varan á þessum markaði í dag er Tile.

Nýtt Apple TV hefur svo verið alveg að koma lengi skv. Apple fréttasíðum. Síðasta uppfærslan af tækinu, Apple TV með 4K stuðningi, kom út árið 2017. Nýjasta útgáfan á að koma með hraðari örgjörva fyrir spilun leikja ásamt nýrri fjarstýringu, en skv. Bloomberg er talið líklegra að það komi út á næsta ári.

Hvernig get ég horft á viðburðinn?

Hægt er að horfa á viðburðinn í Apple TV forritinu (á Apple TV, iPad, iPhone) en einfaldasta leiðin er líklega með því að fara á straum fyrir viðburðinn á YouTube.