Mac OS X LionMac: Sumir eru þannig úr garði gerðir að þegar nýtt stýrikerfi kemur út, þá vilja þeir hreinsa öll gögn af gamla stýrikerfinu, og setja nýja kerfið upp, þannig að tölvan sé að vissu leyti eins og hún sé keypt út úr búð.  en ekki uppfæra kerfið með öllum gömlu upplýsingunum (þessi uppsetningaraðferð var í boði á Leopard undir valkostinum Erase and Install, en einnig er oft talað um þetta sem clean install utan okkar ástsælu eyju).

Ef þú kýst að fara þessa aðferð þá þarftu að taka afrit af þeim gögnum sem þú vilt eiga á tölvunni þinni áður en lengra er haldið, og fylgja svo leiðarvísinum að neðan til að tölvan þín verði eins og ný. Þetta er líka hentug aðferð ef þú keyptir tölvuna þína notaða, og vilt heldur hreinsa allt út í stað þess að sitja uppi notandaupplýsingar og fleira frá þeim sem seldi þér hana.

Athugið! Áður en lengra er haldið þá viljum við ítreka að þú takir afrit af þeim gögnum sem þú vilt eiga, því með þessari aðferð þá eyðirðu öllum gögnum á harða disknum þínum.

 

Leiðarvísirinn hljóðar svo:

Skref 1: Byrjaðu á að fylgja þessum leiðarvísi til að búa til Lion uppsetningu á DVD eða USB minnislykli.

Skref 2: Með DVD diskinn eða USB minnislykilinn tengdan við tölvuna, slökktu á tölvunni þinni.

Skref 3: Haltu Option takkanum inni og kveiktu á tölvunni. Þá ættirðu að geta valið harða diskinn þinn eða Lion uppsetningardiskinn. Veldu Lion uppsetninguna.

Skref 4: Eftir að þú hefur farið í gegnum lítinn Welcome skjá, þá skaltu litast um efst á skjánum, en þar ættirðu að sjá Utilities valmöguleika. Þar skaltu svo velja Disk Utility.

Skref 5: Veldu harða diskinn þinn í vinstri dálknum þínum, og smelltu á Erase flipann. Veldu Mac OS Extended (Journaled) sem sniðið á disknum (e. format), og smelltu á Erase.

Skref 6: Farðu úr Disk Utility og aftur í uppsetninguna á stýrikerfinu, og veldu þar Install Mac OS X. Veldu harða drifið sem þú varst að eyða út af.

Skref 7: Fáðu þér kaffibolla, lestu blaðið eða horfðu á einn Seinfeld, því að uppsetningin tekur 15-25 mínútur. Að því búnu þá ferðu í gegnum uppsetningu á tölvunni eins og þú hafir verið að kaupa hana nýja úti í búð.

Ritstjórn
Author

Write A Comment