fbpx

Chromebook Pixel

Google kynnti nýlega fartölvu sem fyrirtækið ætlar að senda frá sér, og ber heitið Chromebook Pixel.

Chromebook Pixel er fartölva sem telja má nokkuð sérstaka, þar sem að Google sá um hönnun tölvunnar, en fyrirtækið hefur hingað til einbeitt sér að þróun hugbúnaðar eða stýrikerfi, en leyft öðrum fyrirtækjum að einbeita sér að framleiðslu símtækja og tölva.

Nokkuð ljóst þykir að tölvan er sett á markað til höfuðs Macbook Pro með Retina skjá, en Chromebook Pixel kemur með 12,85 tommu skjá með 2560×1700 díla upplausn, sem Google fullyrðir að sé sú mesta í sögunni.

Þar að auki kemur tölvan með Intel i5 örgjörva, 4GB af vinnsluinni, 32GB hörðum disk og og Intel HD 4000 skjástýringu. Tölvan kemur einnig með möguleika á 4G LTE nettengingu, þannig að notendur ættu að geta komist á netið óháð því hvort boðið sé upp á Wi-Fi í næsta nágrenni.

Verð tölvunnar er í hærri kantinum, en ódýrasta gerð tölvunnar mun kosta 1299 dali í Bandaríkjunum, eða tæplega 165.000 krónur miðað við núverandi gengi. Það er aðeins ódýrara en Macbook Pro með Retina skjá, sem kostar 1499 dali vestanhafs.

Author

Write A Comment