Snapchat 5.0 - iOS

Spjallmyndaforritið vinsæla Snapchat fyrir iOS fékk ansi stóra uppfærslu í gær þegar útgáfa 5.0 af forritinu kom í App Store.

Viðmót forritsins var tekið alveg í gegn og er nú þannig að notendur nota hreyfingar (e. swipes) til að fara á milli glugga, aðilar geta tvísmellt á færslur til að svara. Þar að auki þurfa iOS notendur ekki lengur að ræsa forritið tvisvar til að nota forritið, en það var mjög algeng villa í forritinu, og nokkuð sem fólk var farið að venjast.

Snapchat, fyrir þá sem ekki vita, er forrit fyrir iOS og Android sem hefur notið gífurlega vinsælda síðustu mánuði. Forritið gerir notendum kleift að senda myndir á móttakanda sem hefur 1-10 sekúndur (fer eftir vali sendanda) til að skoða myndina. Síðan er myndin horfin að eilífu. Ef myndband er sent þá er einungis hægt að horfa á það einu sinni en síðan hlýtur það sömu örlög og sendar myndir.

Hér fyrir neðan er ágætis sýnidæmi um hvernig forritið virkar:

http://www.youtube.com/watch?v=wddb_bH5Kys

Snapchat fæst í App Store og er ókeypis.

Ritstjórn
Author

Write A Comment