Í byrjun árs greindum við frá áhrifum iMessage á skilaboðasendingar, þar sem Neven Mrgan, starfsmaður Panic tók saman hversu mörg sms skilaboð hann hefði sent fyrir og eftir iMessage.
Það er ekki nema von að maður spyrji sig hversu mikið tekjutap er hjá farsímafyrirtækjum vegna iMessage og skyldra forrita. Fyrirtækið Ovum gerði rannsókn á þessu, sem tók saman hversu mikil notkun er á slíkum forritum, og svo reiknað út tekjur farsímafyrirtækjanna ef skilaboðin hefðu verið send sem SMS.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru að farsímafyrirtæki heimsins hafa tapað u.þ.b. 1725 milljörðum króna ($13.9 milljörðum dollara) vegna slíkra forrita. Þó ber að taka fram að kostnaður vegna aukinnar gagnanotkunar hjá farsímafyrirtækjum var ekki tekin með í reikninginn.
Vinsælustu forritin í þessum hópi er iMessage þjónustan hjá Apple, BlackBerry Messaging hjá samnefndu fyrirtæki og ChatON frá Samsung. Þá eru forrit frá fyrritækjum sem hafa enga tengingu fyrir farsímaframleiðendur vinsæl, og ber þar helst að nefna Viber, WhatsApp Messenger og Kik Messenger. Að endingu þá nota margir samfélagsvefi á borð við Twitter og Facebook til að senda vinum og ættingjum skilaboð.
Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að farsímafyrirtækin muni hækka kostnað á gagnapökkum sínum. Vodafone hækkað nýverið verð á dagneti í Vodafone Frelsi úr 25 kr./5MB upp í 90 kr./5MB. Engar ályktanir verða þó dregnar um hvort minni tekjur vegna SMS skilaboða eigi þar hlut að máli, en óhætt er að segja að þetta sé hressileg hækkun á þjónustuleið.